Fortíð og nútíð: Að horfast í augu við áskoranir í menntun

Núna skulum við velta fyrir okkur hvernig fyrri tíma fordómar og mistök geta endurspeglast í nútíma kennsluháttum og hvernig við getum lært af sögunni til að skapa réttlátara og skilvirkara menntakerfi fyrir alla nemendur. Frá örvhentum nemendum fortíðar til fjölbreyttra námsþarfa nútímans skoðum við hvernig viðhorf okkar og aðferðir þurfa stöðugt að þróast.

Heimur jákvæðra framfara
Það er margt sem hefur batnað í menntakerfinu okkar í gegnum árin, eitt af því er að núna mega krakkar skrifa með vinstri hendi. Höndin er ekki lengur bundin fyrir aftan bak líkt og gert var um miðja seinustu öld. Margt annað hefur batnað í þjóðfélaginu okkar. Við erum t.d. hætt að geyma vangefið fólk úti í fjósi, við setjum homma ekki lengur í fangelsi og það var fréttnæmt árið 1977 að það væri negri í Þistilfirði. Já, þetta er ekki lengur við lýði.

Og við hugsum jafnvel: Hvað var í gangi hjá fólki áður fyrr, hverslags fordómar voru þetta eiginlega? Að það mætti ekki skrifa með vinstri hendi, var allt í lagi með þetta lið?

Mynd 1: Forvarnir: Að leiðrétta örvhentu, er forsíðan á kennslubók sem var notuð til að afvenja örvhenta nemendur, „The Prevention and Correction of Left-Handedness in Children“ eftir J.W. Conway. Bókin kom út árið 1936.
Þessi gamla bókarkápa sýnir hvernig viðhorf til örvhentra hefur breyst. Hún minnir okkur á mikilvægi þess að endurskoða stöðugt viðhorf okkar til menntunar og samfélagsins sem við búum í.

Að dæma og tíðarandinn
Það er auðvelt að dæma fortíðina og fordæma fyrri venjur, eins og hægrihandarkennslu, en erfiðara að horfa gagnrýnum augum á eigin samtíð. Í dag stöndum við frammi fyrir sambærilegum áskorunum í menntakerfinu. Þótt við höfum útrýmt augljósri mismunun, eins og gagnvart örvhentum, kunnum við að vera blind á aðrar tegundir mismununar.


Ein slík áskorun er notkun staðlaðra prófa til að meta alla nemendur, óháð þeirra einstöku þörfum, hæfileikum og getu. Þessi nálgun gæti verið jafn takmörkuð og ósanngjörn og fyrri tíma viðhorf til örvhentra. Spurningin er: Erum við tilbúin að endurskoða núverandi aðferðir okkar með sama gagnrýna hugarfari og við beittum í fortíðinni?


En núna þurfum við að snúa speglinum við og horfa í eigin barm! Stundum þurfum við að staldra við og spyrja okkur að lykilspurningu?
Fólk árið 2124 horfir til 2024: Hvað mun fólki eftir 100 ár héðan í frá finnast athyglisvert við okkar tíma? Hvað af því sem okkur finnst núna eðlilegt gæti því jafnvel þótt ámælisvert?


Ef við einbeitum okkur að menntun, þá gæti hugsast að fólki eftir 100 ár myndi finnast umhugsunarvert að hafa staðlaða kennslu í grunnskóla dönsku sem skyldufag.


Önnur spurning sem gott væri líka að spyrja sig er: Hvað hefur breyst í menntakerfinu seinustu 150 ár eða svo? Heimurinn hefur umturnast á þessum árum, en hefur menntakerfið fylgt með?

Dýraskólinn: allir fá sama prófið:

Samlíkingin við myndina af dýrunum sem er hérna fyrir neðan, þar sem mismunandi dýr eru beðin um að klifra upp í tré, lýsir þessu vandamáli á skýran hátt. Hugmyndin um að allir skuli standast sömu kröfur, þegar greinilega er um að ræða ólíka hæfileika, speglar einmitt þann veruleika sem margir nemendur upplifa daglega.

Nú, og mér skilst að þegar höndin var bundin fyrir aftan bak á krökkum áður fyrr þá hafi það verið gert lauslega, þ.e. ekki var verið að reyra höndina fyrir aftan bak, heldur var bara tryggt að það gæti ekki notað hana til að skrifa með. Aðalpyntingin var að skera sig úr hópnum og láta innprenta í sig að það væri eitthvað að. Það var um andlega pínu að ræða meira en líkamlega.

Þá spyr maður sig, hver er munurinn á að binda vinstri hendina fyrir aftan bak og láta alla nemendur læra það sama og taka sama prófið?

Mynd 2: Bannað að skrifa með vinstri, er mynd af minningargrein um Árna Theodórsson sem var einn af þeim sem lentu í því að vera bannað að skrifa með vinstri hendi í Verzlunarskólanum. Þar stendur meðal annars: „Pabbi gekk í Verslunarskólann eftir venjulega skólagöngu og í þeim skóla var bannað að skrifa með vinstri hendi og varð því pabbi að læra að skrifa með hægri.“

„Hvers vegna á barn sem hefur hæfileika til að skapa með höndunum, en er ekki eins gott í bóknámi, að upplifa sig sem vitlaust eða annars flokks?“

Mynd 3: Dýraskólinn, er vel þekkt skopmynd af kennara og skólabekk eftir Hans Traxler frá árinu 1976. Þar segir kennarinn við skólabekkinn sinn, sem samanstendur af kráku, apa, mörgæs, fíl, fisk, sel og hund: „Svo að valferlið verði sanngjarnt þurfa allir að taka sama prófið, vinsamlegast klifið upp þetta tré“.

Er þetta svo ólíkt menntakerfinu í dag, próf eru sanngjörn vegna þess að allir eru eins og fá því sama prófið…