Að miðla þekkingu

Að miðla þekkingu

Hvernig þekkingu er komið á framfæri hefur alltaf verið sérstaklega mikilvægt fyrir mig og mætti jafnvel kalla það áhugamál mitt. Vonandi hafið þið gaman af þessu vangaveltum og getið jafnvel nýtt ykkur þær í leik og stafi.

Kennsla – nálgunin er mér allt

Ég trúi ekki að ég geti kennt einum né neinum neitt. Ég bendi á hluti, hluti sem ég trúi á og tel vera rétta núna. Það er síðan undir ykkur komið að nota, nýta eða gleyma því sem ég bendi á.

Það heiti sem á endanum er notað yfir þann einstakling sem heldur námskeið og deilir þekkingu sinni og sýn á hlutina með öðru fólki er að hluta til orðaleikur. Hins vegar, þá skiptir það máli fyrir námskeiðshaldarann og þá sem koma á námskeið til hans, hvernig hann nálgast efnið. Ef viðkomandi leiðbeinandi telur sig vera að „kenna“ sannleikann og að fólki beri að fara eftir því sem hann segir þá er hann búinn að setja sig ofar efninu. Það er ekki vænlegt til árangurs þegar þú vilt fá fólk til að líta í eigin barm og gera breytingar á lífi sínu.

Það má setja þetta fram á nokkra vegu en við skulum nota orðin kennari og leiðsögumaður til skiptis.

 • Kennari er aldrei sá sem segir bara sannleikann – hann er leiðsögumaður, hann bendir á sannleika sem hver og einn verður síðan að finna út hvort henti honum og/eða sé sannur! Góður kennari er í besta falli hvati fyrir nemendur sína til að þroskast áfram, í þá átt sem þeir kjósa sér!
 • “Kennarar opna dyr, en þú verður að stíga yfir þröskuldinn.”
 • Leiðsögumaður er sá sem bendir á margar mögulegar leiðir en þú verður að velja leiðina! Leiðsögumaður bendir á dyrnar en þú verður að ákveða hvaða dyr þú ætlar að opna og stíga síðan sjálfur/sjálf yfir þröskuldinn.
 • Ég get ekki kennt einum né neinum neitt en ef ég get fengið viðkomandi til að íhuga málefnið, þá er markmiðinu náð.
 • Nýttu það sem er gagnlegt, losaðu þig við það sem er gagnslaust og bættu því við sem er einmuna þitt.

Fólk getur líka treyst því að upplýsingarnar sem farið er yfir á mínum námskeiðum og fyrirlestrum séu eins góðar og „réttar“ og völ er á. Það besta sem nokkur leiðbeinandi getur gert er að benda á það sem hann trúir að sé „sannleikur“ á þessari stundu en með þeim fyrirvara að það geti breyst. Fólk getur treyst því að það sem ég segir kemur frá hjartanu, það sem ég tel vera rétt á þessari stundu. Þó er það svo að það er sjaldast bara ein hlið á málum og því skoðum við líka sjónarmið þeirra sem eru á öndverðum meiði við meirihluta fólks, hvort sem það eru vísindamenn eða almenningur.

Ég legg gríðarlegan metnað í námskeiðsefnið og til að vera alltaf með nýjustu og bestu upplýsingar sem völ er á les ég 40 til 50 bækur á ári, horfi á 25 til 30 heimildamyndir ásamt því að lesa milli 600 til 800 greinar af Netinu á ári.

Við lærum mest og best með spurningum

Þegar ég held námskeið eða fyrirlestra nota ég óspart þá tækni að varpa fram spurningum til hópsins. Síðan ræðum við möguleg svör eða hvaða lærdóm megi draga af viðkomandi spurningu.

„Kennsla er eldsneytið sem kveikir á kyndlinum, ekki uppfylling hugans.“ Socrates

Ég hvet síðan til opinna og fordómalausra tjáskipta, enda byggir töluverður hluti þess sem fólk lærir á námskeiðum á tjáskiptum og umræðum innan hópsins. Á þannig stundum er leiðbeinandi jafnvel aukaatriði.

„Segðu mér og ég gleymi ‐ sýndu mér og ég man ‐ leyfðu mér að reyna og ég skil.“ Konfusius

Að færa okkur af þrepi 1 yfir á þrep 2 og 3

Þegar við lærum eitthvað nýtt, t.d. á námskeiðum eða með lestri bóka, þá má segja að þekkingaröflun skiptist í þrjú þrep:

 1. Þekking (e. knowledge)
 2. Viska (e. wisdom)
 3. Innsýn/skilningur (e. insight, gut feeling) (innsýn inn í lífið)

Öll þessi þrep eru mikilvæg en þó mis mikilvæg, og erfiðleikastuðulinn við að komast upp á næsta þrep er misjafn. Skoðum hvert þrep fyrir sig.

Þekking

Það má segja að allt byrji þetta með þekkingu. Þú lærir hluti, jafnvel utanbókar og stundum án þess að skilja í raun neitt út á hvað þeir ganga. Þú ert í raun með fullt af upplýsingum, en skilur ekki merkingu þeirra.

Tökum dæmi. Þú þekkir nöfn á fjölda fuglategunda, jafnvel líka á ensku og latínu, en þú veist samt sem áður ekkert hvernig viðkomandi fugl hagar sér. Þú getur hinsvegar slegið um þig með „gagnslausri“ þekkingu ef svo má segja!

„Andstæðingur þinn er á endanum aldrei keppandinn hinum megin við netið, sundmaðurinn á næstu braut, liðið á hinum helmingi vallarins og ekki einu sinni hástökkssláin sem þú þarft að komast yfir. Andstæðingurinn ert þú sjálfur, þínar neikvæðu innri raddir og þinn eigin viljastyrkur.“ – Grace Lichtenstein.

Viska

Helsti munurinn á milli þreps 1 og 2 er að núna þurfum við að fara að hugsa. Hvað þýðir það í raun og veru? Sem dæmi á þrepi 1 gætir þú lagt á minnið höfuðborg hvers fylkis í USA og til að færa það yfir á þrep tvö færir þú að spyrja þig: Hvers vegna t.d. stærsta/fjölmennasta borgin í viðkomandi fylki sé ekki alltaf höfuðborg þess? Viskan kostar orku og að kynna sér hlutina frá fleiri en einu sjónarhorni.

Tökum áfram samlíkinguna með fuglana. Núna, á þrepi 2, þá ertu kominn með visku. Þú veist hvað fuglarnir gera og hvernig þeir haga sér. Þú veist hvað þeir borða, hvort þeir séu farfuglar, hversu mörgum ungum þeir koma vanalega á legg og svo framvegis.

Innsýn

Þegar þú ert búinn að afla þér þekkingar, velta henni fyrir þér, búa til visku úr henni fer innsýnin að koma. Hérna eru lykilorð tími og reynsla. Þegar þú heyrir nýjar upplýsingar um hluti sem þú hefur aflað þér þekkingar og visku um þá ferðu að geta beitt innsæi til að greina hversu líklegt er að viðkomandi upplýsingar bæti við þekkingu þína, visku og þá innsæi.

Skoðum þetta aðeins nánar. Þekking er oft það sem er kallað utanbókarlærdómur, t.d. að muna nafn á fugli. Viska er síðan að vita hvernig þessi fugl hagar sér og hvers vegna. Innsýn væri síðan að átta sig á að þótt þú hafir ákveðna visku um hegðun viðkomandi fugls, þá er ekki þar með sagt að það sé 100% rétt. Það eru jú alltaf til undantekningar, og ekkert er einfaldlega svart og hvítt. Sem dæmi um það er að þó viðkomandi fuglategund sé farfugl þá verða stundum einstaka fuglar eftir. Það er kennt að svanir makist fyrir lífstíð, en hjónaskilnaður þekkist hjá þeim og að endingu má líka nefna að ca 5% svana eru samkynhneigðir. Á þriðja þrepi kemur líka oft inn ákveðin auðmýkt gagnvart þekkingu. Einstrengishugsunin minnkar og fólk verður opnara gagnvart heiminum og skoðunum annarra. Dómharka minnkar og innri ró kemur í staðinn.

Nú og hérna gæti hringnum hugsanlega verið lokað, þ.e. innsýn getur þýtt að vera með opinn huga gagnvart því að hugsanlega var þekking þín og viska ekki 100% rétt og/eða að það vantaði eitthvað upp á hana. Innsýn mætti hugsanlega orða sem auðmýkt gagnvart heiminum sem við búum í og hvernig allt virkar.

En hvernig fer maður að því að breyta þekkingu yfir í visku og innsýn? Oft kemur það ósjálfrátt hjá fólki, svona með reynslu og tíma. Ef þú vilt hins vegar flýta fyrir þínu ferli, þá koma spurningar og í raun forvitni sterkt inn. Alltaf þegar þú heyrir nýjar upplýsingar veltu þá fyrir þér hvers vegna þetta er svona? Að spyrja „Hvers vegna“ ýtir hugsun þinni upp á hærra stig og þú ferð að velta hlutunum fyrir þér í stærra samhengi. Taktu engu sem gefnu, sama hvaðan það kemur, veltu öllu vel fyrir þér, leitaðu jafnvel frekari upplýsinga og svo dregur þú þínar ályktanir.

Þú ert allt sem til er.

Þínar hugsanir, þitt líf, þínir draumar rætast.

Þú ert allt sem þú velur að vera.

Þú ert jafn takmarkalaus og hinn endalausi alheimur.

Shad Helmstetter

Leitin að sannleikanum

Það er ekki til neinn einn sannleikur, sannleikur þinn er einungis til í þínum kolli, hann er þinn sannleikur, hann er ekki sannleikur neins annars, bara þinn.

Að það sé alltaf hægt að finna sannleikann eða sanna hluti vísindalega er endastöð sem ber að forðast. Það er ekki til neinn einn sannleikur í einu né neinu, að telja að hann sé til er sóun á orku og gerir okkur þröngsýn og óviljug að skoða nýja hluti, við verðum einstrengingsleg. Þetta segir okkur hins vegar ekki að það sé ekki mikilvægt að leita sannleikans. Það er mikilvægt að skoða hlutina vel og sjá eins mikla heildarmynd og möguleiki er. Þá er að halda áfram og leita sér „nýs sannleika“ en þráast ekki við út í óendaleikann. Leitin er ferðalag og hennar er mikilvægt að njóta, það að ná toppnum er ekki endilega það mikilvægasta, heldur að njóta ferðarinnar að honum. Líkt er með leitina að sannleikanum, leitin sjálf skiptir máli, ekki það hvort þú finnir sannleikann, enda er ekki neinn einn sannleikur til.

Opinn hugur

Ég segi stundum, í hálfgerðu gríni, að eina krafan fyrir þátttöku á námskeiðum og fyrirlestrum hjá Takmarkalausu Lífi sé að viðkomandi komi með opinn huga gagnvart efninu og skoðunum annara. Flestu gríni fylgir þó einhver alvara. Til þess að opin skoðanaskipti verði hjá hóp af fólki þá skiptir máli að sem flestir séu með opinn huga og dæmi ekki ólíkar skoðanir annarra á námskeiðinu. Því byrja öll námskeið á því að spyrja fólk hvað það sé, í þeirra huga, að vera með opinn huga? Flestir hafa ámóta sýn á þetta og ekki mikið um hörð skoðanaskipti í þessum vangaveltum. Allflestir eru sammála því að það sé mikilvægt að vera með opinn huga og tileinka sér það eins og framast er unnt. Það hefur nefnilega enginn komið á fyrirlestur til mín sem ekki segist vera með opinn huga. Öll teljum við okkur vera með opinn huga. Spurningin er bara hvernig annað fólk túlkar okkar opna huga.

 • Að gefa öllu sem maður heyrir tækifæri.
 • Afgreiða ekki hluti sem eru þvert á skoðun okkar án þess að gefa þeim tækifæri.
 • Forðast fordóma. Það er erfitt að vera með opinn huga ef þú ert fullur af fordómum.
 • Vera jákvæður. Það er erfitt að vera með opinn huga ef maður er neikvæður.
 • Að vera með opinn huga þýðir ekki að maður eigi að trúa öllu sem maður heyrir, síður en svo. Það þýðir miklu frekar að maður eigi að gefa því tækifæri. Þetta er mikilvægur punktur vegna þess að þó þú tileinkir þér hugfar opins huga, þá þarft þú ekki síður að tileinka þér gagnrýna hugsun, ekki trúa neinu að órannsökuðu máli. En meira um gagnrýna hugsun hérna rétt á eftir.

En hvað þýðir það að tileinka sér opinn huga? Þú þarft t.d. að trúa því að „allir sem þú hittir muni getað víkkað sjóndeildarhring þinn“ og að „allir sem þú munt hitta munu vita eitthvað sem þú veist ekki“. Emerson sagði t.d. “Hver einasti maður sem ég hitti er mér meiri á einhvern hátt. Á þann hátt læri ég eitthvað af honum.” Orð Emerson eru sérlega vel sögð, því ef manni finnst maður yfir annað fólk hafinn, sama hver sá einstaklingur er og hvað hann gerir, þá verður erfitt að vera með opinn huga gagnvart honum og þar af leiðandi enn minni líkur að maður geti lært eitthvað af honum.

Við skulum rifja upp skemmtilega Zen sögu sem er kölluð „tebollinn“ (A Cup of Tea). Eitt sinn fór virtur prófessor á fund Zen meistara nokkurs og spurði hann hver væri meininginn með Zen? Zen meistarinn hellti tei rólega í bolla. Bollinn fylltist en áfram hélt Zen meistarinn að hella. Nú gat prófessorinn ekki hamið sig lengur og sagði við Zen meistarann, “Hvers vegna heldur þú áfram að hella þegar bollinn er orðinn fullur?“ Þá sagði Zen meistarinn, „Það er vegna þess að mig langar að benda þér á að þú ert að reyna að skilja hvað Zen er og hvað það gengur út á meðan hugur þinn er fullur, líkt og tebollinn. Þú verður að byrja á að tæma hugann af öllum fordómum áður en þú getur reynt að skilja Zen.“

Gagnrýnin hugsun

Að tileinka sér opið hugarfar er nátengt því sem kallað er gagnrýnin hugsun. (e. critical thinking).

Samkvæmt íslenskri orðabók merkir lýsingarorðið „gagnrýninn“ annaðhvort „skarpur í gagnrýni sinni, athugull á allar hliðar máls“ eða „aðfinnslusamur“. Sú merking sem er mest viðeigandi í orðasambandinu „gagnrýnin hugsun“ er að vera „athugull á allar hliðar máls“.

„Gagnrýnin hugsun er sú hugsun sem fellst ekki á neina skoðun eða fullyrðingu nema hún hafi fyrst rannsakað hvað í henni felst og fundið fullnægjandi rök fyrir henni. Með öðrum orðum: gagnrýnin hugsun leitar að nýjum og betri rökum fyrir skoðunum sínum og hugmyndum og er þar af leiðandi sífellt að endurskoða þær.“ Erindi flutt í Ríkisútvarpinu 13. og 20. október 1985 eftir Pál Skúlason

Það kallast gagnrýnin hugsun að fallast ekki á neina skoðun, hvaðan sem hún kemur, nema maður rannsaki hvað í henni felst og geti fundið fullnægjandi rök fyrir henni. Gagnrýnin hugsun hjálpar okkur að setja kerfisbundið fram vandamál sem við gerum okkur einungis lauslega grein fyrir. Með því að beita gagnrýninni hugsun áttum við okkur á hvaða upplýsingar skipta máli fyrir lausn vandamálsins. Hugsun okkar verður virk þegar við túlkum upplýsingarnar með opnum huga og metum afleiðingar mismunandi túlkunarleiða. Gagnrýnin hugsun er bæði athöfn og leiðarvísir fyrir skoðanir okkar og gerðir.

Temdu þér að nálgast mál ávallt bæði með opnum huga og gagnrýnni hugsun. Leyfðu þér að vera spurull, ekki of íhaldssamur í skoðunum, og að sækjast eftir réttum upplýsingum og umfram allt að bera virðingu fyrir skoðunum annarra.

Hvers vegna er gagnrýnin hugsun mikilvæg?

Það má jafnvel segja að gagnrýnin hugsun sé forsenda framfara mankyns á jörðinni. Það er ansi djúpt í árina tekið en er samt ekki sannleikskorn í því?

Páll Skúlason, fyrrverandi háskólarektor og prófessor í heimsspeki orðar þetta vel. „Framfarirnar eru undir því komnar að menn efist um gildi ríkjandi kenninga, reyni að finna á þeim veika bletti. Þetta virðist raunar vera eitt helsta skilyrðið fyrir framförum á hvaða sviði sem vera skal: að litið sé gagnrýnum augum á þau vinnubrögð sem tíðkast og reynt að finna önnur betri; að reynt sé að finna galla á verki – hvert svo sem það er – til að unnt sé að gera betur.“

Rýndu og veldu

Það hefur alltaf verið mikilvægt að setja spurningamerki við allt sem við heyrum og sjáum og sérstaklega það sem kemur frá fréttamiðlum. Við lifum ekki bara á friðsælustu tímum jarðar, heldur líka á best upplýstu tímum í sögu jarðarinnar. Upplýsingar um glæpi, sjúkdóma og náttúruhamfarir hefur aldrei verið jafn auðvelt að nálgast og í dag. Snögg leit á netinu getur skilað okkur meiri upplýsingum um hryðjuverkaárás en hvaða dagblað sem er fyrir 100 árum. Flestir vita að það sem er í fréttum er ekki allt satt og rétt og að það eru að minnsta kosti alltaf tvær hliðar á öllum málum. Við vitum líka að fréttir fjalla nánast bara um neikvæðu hliðina, þá hlið sem er blóðugri. Hvernig vitum við hvort fréttir gefa raunsanna mynd af stöðu mála almennt? Við ættum kannski oftar að spyrja okkur, eftir lestur slíkra fyrirsagna og frétta, hvað „gerðist ekki“. Ef þetta eru málefni sem snerta þig og þitt líf þá er hægt að velta upp fleiri hliðum mála. Nýttu þér leitarvélar eins og „Google“ með það að markmiði að skoða fleiri hliðar málsins.

Þá er eðlilegt að við spyrjum okkur hvort nauðsynlegt sé að „googla“ allt sem maður heyrir til að staðreyna það? Svarið er já og nei. Tökum dæmi. Þú heyrir eða lest að kaffi sé bráðhollur drykkur en þú hefur alltaf haft þá skoðun að kaffi sé óhollt. Þó þér finnist það ákaflega gott þá ertu alltaf að reyna að hætta að drekka kaffi og ert með samviskubit yfir að geta það ekki. Í þessu dæmi þarf að „gúgla“ og eyða tíma í komst eins nálægt sannleikanum og hægt er. Ef þér þætti hins vegar kaffi vont, hefðir aldrei drukkið það og langaði ekki til þess þá þarf jafnvel ekkert að sannreyna þessar upplýsingar með þessum hætti. Þér finnst það hvort sem er vont.

En núna gæti sá sem trúði því að kaffi væri óhollt en þætti það ákaflega gott sagt, „En ég er störfum hlaðinn; ég hef engan tíma fyrir þá miklu rannsóknarvinnu sem til þarf svo ég verði dómbær um margvísleg vandamál eða jafnvel færan um að skilja allar röksemdir fyrir því að kaffi sé hollt.“ Þá gætum við sagt við hann „þú ættir þá ekki heldur að hafa neinn tíma til að trúa…“ Með öðrum orðum: við skulum vera hlutlaus um þau efni sem við erum ekki dómbær um, ekki taka afstöðu eða mynda okkur skoðun fyrr en við höfum kynnt okkur málin. Við ættum að vera hlutlaus í þeim efnum þar sem við eigum ekki enn kost á neinum „öruggum“ niðurstöðum.

Jafnvel má segja að gagnrýnin hugsun eigi ekki alltaf við, að það sé alltaf undantekning á reglunni. Um þetta eru menn ekki sammála og það er ljóst að í þessu, líkt og flestu öðru, eru a.m.k. tvær hliðar á peningnum góða. Hvenær á hugsanlega ekki við að beita gagnrýnum huga? Í hvaða tilfellum getur það átt við? Þegar málin snerta t.d. trúarbrögð, siðferði og stjórnmál þá hljóta tilfinningar manna, langanir eða hagsmunir að vera undirstöður skoðana þeirra, breytni og ákvarðana – og er það endilega rangt?

Sem dæmi, þá er erfitt að beita gagnrýnni hugsun og ákveða út frá því hvaða guð á að trú á, eða hvort þú átt að gerast trúleysingi. Sumu bara trúum við vegna þess að okkur var sagt það. Stundum getur það verið ágætt, allavegana ef það er orðin almenn sátt um viðkomandi mál í þjóðfélaginu og í vísindasamfélaginu. Þarna gæti maður nefnt sem dæmi að jörðin sé ekki flöt og að sólin sé miðpunktur sólkerfisins sem jörðin er í. Þó að yfirhöfuð sé ekki rétt að „trúa“ bara einhverju vegna þess að „einhver sagði það“ þá liggja rök manna fyrir skoðunum, hugmyndum og kenningum ekki alltaf á lausu og því er auðvelt að benda á að menn trúi einhverju á algerlega ófullnægjandi forsendum. Þeir geta t.d. haldið að eitthvað sé satt bara af því að „það stóð í blaðinu“ eða vegna þess að „pabbi sagði það“ eða „kennarinn sagði það“.

Nú er ég ekki að halda því fram að það sé ævinlega ástæða til þess að efast um allt sem stendur í blöðunum eða það sem foreldrar eða kennarar segja, heldur einungis að benda á að það er yfirleitt veik forsenda fyrir sannfæringu að einhver annar hafi sagt að eitthvað sé rétt. Við þurfum vissulega oft að reiða okkur á skoðun annarra – foreldra, kennara, sérfræðinga o.s.frv. en við megum ekki treysta þeim í blindni. Ef við erum komin til vits og ára eigum við að biðja um rök.

Það sem okkur vantar núna, meira en nokkru sinni fyrr er fólk sem setur spurningarmerki við allt sem það les, allar fréttir og umfram allt það sem því er sagt að gera. Gagnrýnin hugsun er það sem við eigum að kenna og tileinka okkur og taka ekki neinu sem gefnu og setja spurningarmerki við allt sem okkur er sagt.

Þegar þú hittir einhvern sem hefur fundið allan sannleikann um ákveðið málefni þá er ágætt að beina tali sínu að einhverju öðru eða hætta bara að hlusta. Þegar fólk kemst að þeirri niðurstöðu að það viti „allt“ um viðkomandi málefni, þá er það komið á endastöð, það er ekki tilbúið að opna huga sinn fyrir nýjum möguleikum eða nýrri sýn á hlutina.

Gefum hans heilagleiki Dalai XIV Lama orðið:

„Ég er búddisti og þjálfa mig í samræmi við búddískar kenningar Búdda. Þótt ég tali út frá eigin reynslu er mér síst í mun að þvinga sannfæringu minni upp á aðra. Ég held því ekki fram að mínar aðferðir séu öllum öðrum betri. Þar er það ykkar að ákveða. Ef þið finnið eitthvað í þessu kveri sem þið teljið geta komið ykkur að gagni er um að gera að prófa sig áfram með það. Ef það gagnast ekki er hægur vandi að hætta við.“

Þetta er texti úr inngangi bókarinnar Bókin um viskuna og kærleikann eftir Dalai Lama. Þessi orð endurspegla visku og eiga við flest allt sem við látum frá okkur fara til annarra í formi kennslubóka, námskeiða eða talaðs máls.

Við Íslendingar búum í þekkingarþjóðfélagi og höfum alla tíð verið fróðleiksfús. Okkur þykir gaman að læra og fræðast um nýja hluti. Stundum finnst fólki sem það gæti gert hitt og þetta ef það hefði meiri þekkingu á viðkomandi máli. Standi meintur þekkingarskortur í vegi fyrir einhverjum er ekki úr vegi að rifja upp orð Mark Twain, þegar hann segir svo skemmtilega „Við eigum ekki að óttast það sem við vitum ekki, heldur það sem við teljum okkur vita fyrir víst en er rangt.“

1 apríl: „Eini dagur ársins sem fólk horfir gagnrýnum augum á upplýsingar sem það finnur á netinu áður en það samþykkir þær sem sannleika.“ höfundur óþekktur.

Er eitthvað rétt eða rangt

Frá örófi alda höfum við mannfólkið, í jarðvist okkar, verið þess fullviss að það séu hlutir sem eru réttir eða rangir og við erum þess fullviss að við höfum rétt fyrir okkur hvað það varðar.

Vandamálið er bara að hugmyndir okkar um rétt og rangt breytast frá einum tíma til annars, frá einum stað til annars og frá einni menningu til annarrar. Niðurstaðan er því sú að „það sem einum einstakling eða menningarheimi finnst vera rétt finnst öðrum einstakling eða öðrum menningarheimi vera rangt“. Þetta verður síðan óþrjótandi uppspretta átaka, ofbeldis, morða og stríðsátaka og kaldhæðnin er sú að mest af því er í nafni trúar.

Það versta er síðan að við sitjum upp með þessa „réttsýni“ okkar og teljum okkur trú um að við séum að láta gott af okkur leiða. Við ímyndum okkur að við séum svo „réttsýn“ á það hvað er rétt og rangt að við erum reiðubúin að gera lítið úr öðrum, gagnrýna, ofsækja, dæma, refsa, ráðast á aðra og jafnvel að drepa aðra – allt sem við myndum segja að væri rangt ef aðrir myndu gera okkur það. Áhugaverða staðreyndin er sú að það rétta er alltaf með okkur í liði.

„Það er ekki til neitt sem er „rétt“ eða „rangt“, eingöngu það sem gefst hefur vel og það sem ekki hefur gefst vel, eftir því hvað það er sem þið leitist við að vera, gera eða hafa.“ Neale Donald Walsch

Er hryðjuverk eins manns, annars manns frelsisbarátta?

Viljum við valmöguleika

Samkvæmt könnunum vill meirihluti fólks hafa meiri stjórn á smáatriðunum í lífi sínu en meirihluti fólks vill líka einfalda líf sitt. Þetta mætti kalla mótsögn okkar tíma.

Ef fólk er, sem dæmi, spurt hvort það vildi, ef það fengi krabbamein, geta valið um hvernig krabbameinsmeðferð það fer í þá svara flestir þeirri spurningu játandi. Raunin er síðan önnur ef fólk fær krabbamein. Þá vill það bara láta velja fyrir sig. Það er auðveldara og því fylgir minni ábyrgð að vera sagt hvað maður á að gera í stað þess að vera endalaust að velta fyrir sér kostum og göllum mismunandi meðferða.

Hvernig tengist þetta námskeiðshaldi? Oft sér maður að fólk vill ekkert endilega skoða marga möguleika. Það vill bara láta segja sér hvernig hlutirnir eru og það fer jafnvel í taugarnar á því að fá svör eins og „það veltur á þessu og hinu“ (e. it depends on) og „en eða ef“ og fleira í þeim dúr. Það spyr jafnvel hvort þetta eða hitt sé hollt eða ekki og vill bara svart eða hvítt svar við þessu.

Ef við viljum láta segja okkur hvernig hlutirnir eru án þess að vera tilbúin að skoða alla eða aðra möguleika, þá erum við að nálgast ákveðinn heilaþvott sem stríðir gegn öllum andlegum þroska og framþróunar þekkingar.

Auðvitað má samt sem áður skilja hinn takmarkaða áhuga á vangaveltum. í daglegu lífi höfum við sjaldnast áhuga á spurningum, en þeim mun meira á svörum við þeim. Við þurfum sífellt að fá að vita hitt og þetta og það skiptir okkur oft litlu hvernig við fáum upplýsingarnar, aðalatriðið er að við fáum þær. Með sama hætti höfum við oft áhuga á skoðunum fólks, en lítinn sem engan áhuga á forsendum skoðana þeirra, hvers vegna fólk hefur þessar skoðanir eða trúir því sem það trúir.

Öll erum við einstök

Fátt er öruggt, nema þá helst það að við erum öll einstök, engir tveir einstaklingar eru eins. Við höfum öll mismunandi drauma, þrár, áhugamál og ástríðu fyrir lífinu. Því virka svokallaðar ríkisreglur sem eiga að gilda fyrir alla frekar illa. Þetta á við hvort sem verið er að tala um stjórnun, hugarfar, viðhorf eða næringu.

„Andstæðingur þinn er á endanum aldrei keppandinn hinu megin við netið, sundmaðurinn á næstu braut, liðið á hinum hluta vallarins og ekki einu sinni hástökkssláin sem þú þarft komast yfir. Andstæðingurinn ert þú sjálfur, þínar neikvæðu innri raddir og þinn eigin viljastyrkur.“ Grace Lichtenstein

Helst má líkja þessu við að allir fái sama prófið eða verkefnið í skóla. Hvað gæti verið sanngjarnara en það? Ef við myndum segja við fisk, apa, fíl og fugl að prófið þeirra væri fólgið í því að klifra upp í nærliggjandi tré þá væri það sanngjarnt, er það ekki? Öll dýrin fá sama prófið. En auðvitað vitum við að próf dýranna er ósanngjarnt. Hvernig fer þetta t.d. með sjálfstraustið hjá fiskinum?

Ég sé þetta eins hjá okkur mannfólkinu. Við erum öll með okkar einstöku hæfileika og því geta aldrei neinar ríkisreglur virkað yfir línuna.

Að dæma eða vera dæmdur

Ferðalag að innstu rótum hjartans.

Ég var vanur að eyða miklum tíma í að dæma aðra. Ég var vanur að halda að heiminum væri skipt í rétt og eða rangt; ég taldi að ef ég dæmdi aðra hjálpaði það mér að standa klár á muninum; ég taldi það vera mitt hlutverk að dæma aðra. Núna hef ég lært nýja hluti um að dæma og um mig sjálfan. Það að dæma aðra er það sem ég geri þegar ég er hræddur, óöruggur og ónógur sjálfum mér. Að dæma aðra er eitthvað sem ég geri þegar ég er hræddur við að elska, þegar ég get ekki meðtekið ást þar sem ég samþykki ekki sjálfan mig. Það mikilvægasta sem ég hef lært er að það er ekki mitt hlutverk að dæma aðra. Þegar ég dæmi aðra þá er ég að dæma sjálfan mig. Að dæma kemur frá höfðinu. Frelsi og ást kemur frá hjartanu. Vertu yfir það hafinn að dæma og þú verður frjáls. Lærðu að horfa á sjálfan þig með ástúð sama hver þú ert, hvar þú ert og hvar þú hefur verið.

Dómharka býr til hindranir. Yfirstígðu dómhörku og þú munt öðlast frelsi.

Úr bókinni ferðalag til hjartans eftir Melody Beattie

Þegar við samþykkjum aðra með frelsi og ást að leiðarljósi, þá samþykkjum við okkur sjálf í leiðinni.

Með húmorinn að vopni

Á fyrirlestrum og námskeiðum hjá Takmarkalausu Lífi ráða gleði og léttleiki ávallt ríkjum. Það er vísindalega sannað að við munum betur það sem fram fer þegar grín og léttleiki ráða ríkjum, það er kallað „Humor effect“. Við munum hlutina einfaldlega betur þegar húmor fylgir með.

Lífið er leikur og þú átt að njóta þess. Í leikskólum er kennt gegnum leik og því er svo haldið áfram í grunnskóla. Þekkingaröflun þarf ekki að vera þjáningarfull heldur á hún að vera gefandi og skemmtileg. Það er markmið í sjálfu sér og því eru öll námskeið hjá Takmarkalausu Lífi byggð upp á dæmisögum, myndskeiðum og opnum og frjálslegum umræðum þar sem allar skoðanir fá að njóta sín.

Þekking og Socrates

Að tala um þekkingu og leit að sannleika án þess að minnast á Socrates væri álíka og að tala um fótbolta og minnast ekki á Brasilíu. Hvaða sýn hafði Socrates á þekkingu og visku og hvers vegna var hann valinn vitrastur allra? Grípum niður í bók Gunnars Dal Saga heimspekinnar:

„Maður er nefndur Chairefón. Chairefón leitaði hins yfirskilvitlega, og þegar hann vildi fá úr því skorið, hvort meistari sinn, Sókrates, þá hálffertugur að aldri, væri vitrastur manna, hélt hann á fund völvunnar í Delfí. Véfréttin í Delfí var ævaforn. Erófil spámaður á þar að hafa sagt fram óorðna hluti frá „Kletti spámannsins“. Þar var að sögn Trójustríðið sagt fyrir. Hin fyrsta eiginlega véfrétt er þó talin hafa verið í hofi Móður jarðar (Ge-Themis).

Eftir að Appollódýrkunin hófst í Delfí og hið mikla Appollómusteri var reist, fluttist véfréttin þangað. Á dögum Sókratesar álitu Grikkir þetta musteri mesta helgidóm veraldar. Á veggi þess voru skráð vísdómsorð „hinna sjö vitru manna“, þar á meðal: „Þekktu sjálfan þig“ og „hóf er á öllu best“. Miðja Appollómusterisins var álitin miðdepill jarðarinnar. Þar í klefa einum djúpt niðri í fylgsnum hofsins stóð stór ávalur töfrasteinn, er tákna átti „nafla jarðarinnar“. Hjá honum sat völvan (pythian) á þrífæti sínum, tuggði lárviðarlauf sem vígð voru Appolló, og andaði að sér eimnum sem lagði upp um sprungur á gólfinu. Þannig innblásin af Guði hofsins mælti hún fram spádóma sína.

Til þessarar völvu leituðu æðstu menn ríkisins, þegar fara skyldi í stríð eða ný lönd numin. Og þangað leituðu margir til að fá lausn á vanda sínum og leita á vit hins ókomna.

Spurning Chairefón var óvenjuleg: „Er til nokkur maður núlifandi vitrari en Sókrates?“ – Völvan svaraði fyrir munn Guðsins og kvað engan vitrari en Sókrates.

Þegar Sókrates frétti þetta svar véfréttarinnar, varð hann undrandi og spurði sjálfan sig: Hvað getur Guðinn átt við með þessu? Hvernig getur sá, sem ekkert veit um hin dýpstu rök, verið vitrastur manna? – Sókrates trúði á æðri máttarvöld og æðri sannindi en þau sem menn þekkja. Þess vegna á efi Sókratesar um þekkingu sína ekkert skylt við sjónarmið efasemdamannsins sem efast um allt. Sókrates trúði því að hin æðri máttarvöld gætu á ýmsan hátt komið boðum sínum til mannanna. Sjálfur taldi hann sig hafa reynslu fyrir slíku í draumum sínum og dulheyrnum. Og hann efast ekki um að innblástur skáldsins, hin andlega sýn spámannsins og „trans“ völvunnar í helgidómi Appollós væri af sama toga spunninn. Á hinn bóginn leyfði rökhyggja hans ekki að hann tæki goðsvarið trúanlegt að órannsökuðu máli. Hann varð að ganga úr skugga um það, hvort ekki væri að finna sér vitrari menn í Aþenu sem um þessar mundir var háborg heimsmenningarinnar, – Og Sókrates lagði af stað út á stræti og torg borgarinnar til að leita þeirra. Hann hélt fyrst á fund þess, sem fjöldinn dáði — hins fræga stjórnmála- og valdamanns. Og Sókrates komst að raun um, að stjórnmálamaðurinn var vitur -að sjálfs sín dómi og margra annarra, – en vissi í raun og veru ekki neitt.

Og þannig gekk Sókrates manna á milli, frá stjórnmálamönnum til skálda og frá skáldum til iðnaðarmanna, en alls staðar rak hann sig á það sama; Mennirnir héldu sig vitra, en áttu þó ekki hina sönnu þekkingu. Og að lokum þóttist Sókrates skilja, hvað Guðinn í Delfí hafði átt við: Menn þekkja ekki takmörk mannlegrar þekkingar, hann hafði skilið vanmátt skynseminnar gagnvart hinu yfirskilvitlega og vissi að hann vissi ekki neitt! Þess vegna var hann vitrastur manna! En þessi takmörk mannsins voru að dómi Sókratesar ekki alger og endanleg. Maðurinn var ekki vonlaus. Ljós hinnar sönnu þekkingar bjó í djúpum hverrar sálar og maðurinn átti í vændum að komast með auknum þroska út úr andlegu myrkri sínu. Fyrst varð þó maðurinn að skilja að hann væri algerlega fáfróður án hinnar andlegu sýnar sem er loka takmark heimspekingsins. Og Sókratesi skildist um leið að hér væri honum af æðri máttarvöldum ætlað verk að vinna, – fá menn til að skilja fáfræði sína og leiða þá síðan frá myrkri til ljóss. Um þessa köllun sína lætur Plató Sókratesi síðar farast orð á þessa leið: Meðan ég dreg andann og hef mátt til, mun ég ekki hætta að iðka heimspeki, ekki hætta að áminna ykkur og skýra ykkur frá hinu sanna, hverjum sem ég mæti og segja eins og mér er tamt: Kæri vinur, þú ert borgari í Aþenu, mjög stórri borg og frægri fyrir vitsmuni og mátt andans. Fyrirverðurðu þig ekki fyrir að sækjast svo ákaft eftir fé, frægð og heiðursmerkjum? Viltu ekki leita andans og hugsa um að fullkomna sál þína?

Þegar ég hélt burt hugsaði ég með sjálfum mér: „Sannarlega er ég þó vitrari en þessi maður. Hvorugur okkar virðist hafa neinni þekkingu af að státa, en hann heldur sig vita eitthvað, þótt hann viti ekkert, en mér er ljós fáfræði mín. Ég virðist því vera ofurlítið vitrari að því leyti að ég held mig ekki vita það sem ég veit ekki.“

Þetta varð upphafið að endalokum Sókratesar. Hvað gerðist þegar hann var búinn að afhjúpa að vitrustu menn Aþenu voru í raun ekki vitrir? Hann var með því búinn að færa til skalann. Þeir sem töldu sig vera efsta á vitsmunaskalanum var skyndilega kippt niður og það líkaði þeim alls ekki. Þessir menn voru broddborgarar Aþenu á þessum tíma, æðstu menn í stjórn landsins. Þeir gripu því til þess, sem svo oft hefur verið gert þegar einhver kemur fram og opinberar sannleika sem ekki hugnast stjórnvöldum. Sókrates var tekinn fastur og settur í fangelsi þar sem hann, að lokum, var tekinn af lífi með eitri. Sannleikurinn er sagna vestur… fyrir suma að minnsta kosti.

Þekking okkar er oft á tíðum ákaflega grunn og jafnvel það sem við teljum vera auðskilið getur reynst hið flóknasta mál. Að vera auðmjúkur gagnvart þekkingu og taka engu sem gefnu er því dyggð góð. Fyrir mitt leyti get ég sagt að ég hef lengi haft mikla ástríðu fyrir hollustu og heilbrigðum lífsstíl. Ég hef eytt löngum stundum í að grúska í öllu mögulegu sem viðkemur þessu áhugamáli mínu. Það sem hefur gerst á undanförnum árum er að hvað eftir annað hef ég talið mig vera kominn mjög hátt, ef ekki á topp þekkingarkúrfunnar. Á þeim tímapunkti hef ég talið mig vita nákvæmlega hvað væri hin sanna hollusta og heilbrigður lífsstíl. Síðan hef ég, að skömmum tíma liðnum, farið að grúska í nýju efni og komist þá að því hvað ég vissi í raun lítið. Með öðrum orðum, eftir því sem ég hef kafað dýpra og dýpra í þetta áhugamál mitt hef ég komist að því hversu lítið ég í raun veit.

Eina sanna viskan er að vita að þú veist ekkert. – Socrates