Upphafið – Um mig og fyrirtækið

Upphafið – Um mig og fyrirtækið

Ég stofnaði fyrirtækið Takmarkalaust Líf ehf. á vormánuðum 2011. Fyrir þann tíma hafði ég starfað hjá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni í 12 ár og sinnti þar ýmsum störfum. Má þar nefna starf yfirmanns dreifingar, framkvæmdastjóra vörustjórnunar og framkvæmdastjóra tæknisviðs.
Það hafði verið draumur minn í þónokkurn tíma að stofna eigið fyrirtæki. Fyrirtæki sem hefði það að markmiði sínu að auka lífsgæði fólks með því að kynna fyrir því jákvæðari sýn á lífið og tilveruna. Og sýna því fram á að það eitt að breyta viðhorfi okkar geti breytt líðan okkar.
Í störfum mínum hjá Ölgerðinni öðlaðist ég mikla reynslu í stjórnun og mannlegum samskiptum á vinnustað og nýti ég mér þá reynslu sérstaklega í þeim námskeiðum sem lúta að stjórnun fólks, og hvað varðar tíma- og fundarstjórnun, svo fátt eitt sé nefnt.
Undanfarin ár hef ég haldið fjölda fyrirlestra og námskeiða fyrir stærstu félagasamtök og fyrirtæki landsins. Þeir einstaklingar sem hafa notið leiðsagnar minnar skipta þúsundum.
Með þá reynslu í farteskinu tel ég mig enn frekar geta náð til fólks með því efni sem um ræðir hverju sinni.

Menntun

Eftir grunnskóla lá leið mín í Fjölbrautarskólann á Akranesi en á þeim tíma átti það ekki við mig að stunda nám, ég tók að mér ýmis störf, s.s. störf á lyftara, vann í sláturhúsi, byggingarvinnu og fór því næst á sjóinn. Í framhaldi fór ég í Stýrimannaskólann og lauk þaðan öðru stigi, sem var tveggja ára nám, sem veitti full skipstjórnarréttindi á öll fiskiskip. Næst lá leiðin í frumgreinadeild Háskólans í Reykjavík og í framhaldi af því útskrifaðist ég sem iðnrekstrarfræðingur af rekstrarsviði og með B.Sc.-gráðu í vörustjórnun (e. logistics).

Ég lauk síðar MBA-námi frá Háskólanum í Reykjavík samhliða vinnu minni hjá Ölgerðinni og þá með áherslu á mannauðsstjórnun. Ég er með NLP Practitioner- gráðu frá BrUen og er alþjóðlega vottaður markþjálfi (Coach) frá Háskólanum í Reykjavík (CEG Core Essentials Graduate).

Starfsreynsla

Ég hef látið drauma mína rætast á mörgum sviðum og náð mörgum af mínum markmiðum.

Ég hef látið drauma mína rætast

Ég hef látið drauma mína rætast á mörgum sviðum og náð mörgum af mínum markmiðum.

Fjöllin:

Ég hef klifið fimm fjöll af þeim sjö sem teljast hæstu fjöll hverrar heimsálfu og var fyrstur Íslendinga til að klífa hið alræmda fjall Carstensz Pyramid (4.884m) í Papúa Nýju-Gíneu, en það er hæsta fjall Eyjaálfu. Auk þessa hef ég klifið Mt. Elbrus (5.642m) í Rússlandi, hæsta fjall Evrópu, Mt. Kilimanjaro (5.895m), hæsta fjall Afríku, Aconcagua (6.962m), hæsta fjall Suður-Ameríku, Denali, (6.190m), hæsta fjall Norður-Ameríku og Mt. Blanc (4.809m), sem er hæsta fjall Vestur-Evrópu.

Ég hef líka farið í leiðangra á önnur fjöll eins og Alpamayo (5.947m) í Perú, Matterhorn (4.478m) á landamærum Sviss og Ítalíu og Broad Peak (8.051m) í Pakistan ásamt fjölmörgum öðrum verkefnum tengdum útivist, líkt og að þvera Vatnajökul á gönguskíðum.

Síðast en ekki síst þá er náttúra Ísland stórkostleg og gaman að blanda saman fjallaklifri og skoða í leiðinni okkar ósnortnu náttúru. Ég er því með tvö fjallaverkefni hér innanlands í gangi núna. Annað verkefnið snýr að því að klára alla 151 tindana í bókinni eftir Ara Trausta og Pétur Þorleifsson og síðan 100 hæstu tinda Íslands, skv. listi Þorvaldar V. Þórssonar.

Hlaup og IronMan:

Ég hef lokið tveimur keppnum í IronMan (synt 3,8 km, hjólað 180 km og hlaupið 42,2 km). Ég hef hlaupið Laugaveginn (55 km) tvisvar sinnum og tekið þátt bæði í New York- og Reykjavíkurmaraþoni.

Annað:

Ég hef lokið meistaranámi í viðskiptum, skipstjórnarnámi, unnið hjá Rauða krossinum við hjálparsímann, stundað sjósund, jóga, köfun, rafting, fallhlífarstökk og margt, margt fleira.

Ég hef fjárfest mikið í lífinu og sú fjárfesting nýtist í námskeiðunum og fyrirlestrunum sem ég held.

Markmið, sýn og gildi

Það má vel líkja fyrirtæki við húsbyggingu því ef ekki er byggt á haldgóðum grunni er ólíklegt að húsið standi af sér slæm veður og aðrar náttúruhamfarir. Fyrirtækið Takmarkalaust Líf ehf. er því byggt á grunni heiðarleika og hugrekkis og endurspeglast það í gildum fyrirtækisins.

Markmið:

Að vera Íslendingum hvatning til að líta lífið jákvæðum augum og gera sér ljóst að það eitt að breyta viðhorfi sínu getur aukið lífsgæði og fært okkur meiri hamingju. Markmiðið með fyrirtækinu er að hjálpa fólki að vera hamingjusamara og sáttara í eigin skinni. Þetta ætlar Takmarkalaust Líf að gera með því að halda námskeið, hópefli og fyrirlestra fyrir fyrirtæki, einstaklinga, stofnanir, skóla, íþróttafélög og alla aðra sem vilja og/eða þurfa hvatningu, jákvæðni og nýja sýn á líf sitt.

Sýn:

Takmarkalaust líf er:

Líf þar sem hver dagur hefur tilgang.

Líf þar sem allt sem þú gerir hefur tilgang.

Líf þar sem þú veist að þetta er nákvæmlega það sem þú vilt.

Gildi:

Fyrirtækið Takmarkalaust líf leggur mikla áherslu á heiðarleika í öllum viðskiptum þar sem hin mannlegu gildi eru höfð að leiðarljósi. Komdu fram við aðra eins og þú vilt að sé komið fram við þig, er vísa sem aldrei er of oft kveðin.

Grunngildi okkar eru heilindi, hugrekki, umburðarlyndi og jákvæðni.

Heilindi:

Án heilinda og heiðarleika eru allir aðrir mannkostir lítils virði.

Hugrekki:

Forsenda allra framfara er að hafa hugrekki til að láta drauma sína rætast. Kjarklítil góðmennska er aum eign og ef hún hefur glatað öllum krafti, verður hún hættuleg gildra.

Umburðarlyndi:

Að taka fólki eins og það er án þess að dæma er góð dyggð „dæmið ekki svo að þér verðið eigi dæmdir“.

Jákvæðni:

Segðu eitthvað jákvætt við aðra og hrósaðu í einlægni. Það sem kemur frá hjartanu nær til hjartans. Að hafa gaman af lífinu er það sem lífið gengur út á. Eitt lítið bros getur gert kraftaverk og hláturinn lengir lífið.

Takmarkalaust líf leggur líka áherslu á …

Eldmóð:

Eldmóðurinn einn og sér kemur manni nánast þangað sem maður vill fara. Gáfur og hæfileikar hafa mun minna forspárgildi hvort við náum markmiðum okkar heldur en hreinn og óbeislaður kraftur eldmóðsins.

Þakklæti og kærleika:

Að hugsa um allt það sem við getum verið þakklát fyrir, veitir okkur mikla hamingju. Vertu þakklátur fyrir allt sem þú færð og það sem þú átt. Flest okkar eru mun ríkari en við gerum okkur ljóst dagsdaglega. Sýnum þakklæti í staðinn fyrir að kvarta yfir því sem við höfum ekki. Kærleikur er að lifa sáttur við sjálfan sig og aðra. Kærleikur er hvert góðverk sem þú vinnur.

Ég ætla að halda áfram að láta drauma mína rætast og ætla að verða öðrum hvatning og innblástur til að stefna lengra í lífinu á hvaða sviði sem er, í einkalífi, atvinnu, menntun, íþróttum og félagslífi.

Tökum stefnuna á hamingjusamara líf sem gefur okkur meira og gerir okkur kleift að gefa meira af okkur.

Ásgeir Jónsson

Samfélagsleg ábyrgð

Það er yfirlýstur vilji fyrirtækisins Takmarkalaust Líf ehf. að vera samfélagslega ábyrgt fyrirtæki sem tekur tillit til umhverfisins og samfélagsins þegar ákvarðanir eru teknar og tekur ábyrgð á þeim áhrifum sem ákvarðanir og starfsemi þess kunna að hafa.

Takmarkalaust Líf tekur reglulega þátt í að styrkja góðgerðarmálefni eins og Rauða krossinn og Slysavarnafélagið Landsbjörg .

„Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að við þurfum ekki að velja á milli þess að hjálpa okkur eða hjálpa öðrum! Það er eitt fallegasta framlag þessa lífs að enginn getur hjálpað öðrum af einlægni án þess að hjálpa sjálfum sér. Að hjálpa sjálfum sér og hjálpa öðrum er óhjákvæmilega samtvinnað. Því meir sem við hjálpum öðrum, því hamingjusamari verðum við, og því hamingjusamari sem við verðum því staðráðnari verðum við í að hjálpa öðrum.“. Ralph Waldo Emerson

Ferilskrá – CV

Starfsreynsla:

_______________

2010- Takmarkalaust Líf ehf Eigandi
2007-2010 Ölgerðin Egill Skallagrímsson Framkvæmdastjóri Tæknisviðs og meðlimur í framkvæmdastjórn fyrirtækisins
2001-2007 Ölgerðin Egill Skallagrímsson Framkvæmdastjóri Vörustjórnunar og meðlimur í framkvæmdastjórn fyrirtækisins
2000-2001 Ölgerðin Egill Skallagrímsson Vörustjóri
1999-2000 Ölgerðin Egill Skallagrímsson Dreifingarstjóri
2000-2002 Tækniháskóli Íslands Stundakennari. Kenndi hermun, biðraðafræði (Queueing Theory) og spálíkanagerð.
-1998 Ísaga hf. (www.lindegas.com) Markaðssetning á þurrís (frosinn koltvísýringur, CO2.)
Menntun:

_______________

2012 Háskólinn í Reykjavík MARKÞJÁLFUN, executive coaching
2006 Háskólinn í Reykjavík MBA með áherslu á mannauðsstjórnun
1998 Háskólinn í Reykjavík B. Sc. í vörustjórnun
1997 Háskólinn í Reykjavík Iðnrekstrarfræðingur af rekstrarsviði
1994 Stýrimannaskólinn Full skipstjórnarréttindi
Námskeið:

_______________

2011 NLP-Practitioner-Coach Bruen / Hrefna Birgitta Bjarnadóttir
2007 Þekkingarmiðlun ehf. Erfið starfsmannamál
2007 Stjórnendaskóli Háskólans í Reykjavík Coaching Clinic (Markþjálfun) and Executive Coaching
2006 Warehousing Education and Research Council Hámörkun lagerrýmis, Princeton, NJ
2005 Þekkingarmiðlun ehf. Að skapa lærdómsfyrirtæki
2004 Háskólinn í Reykjavík Mannauðsstjórnun og greining ársreikninga
2004 Rauði kross Íslands Sálræn skyndihjálp og samtalstækni
2003 Dale Carnegie Mannleg samskipti
Önnur reynsla:

_______________

2004 IcePro – verðlaunin (www.icepro.is) EDI-bikarinn er afhentur fyrirtæki sem þykir skara framúr í rafrænum viðskiptum á Íslandi. Ég stjórnaði verkefninu og tók við verðlaununum sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra afhenti.
2004 – 2005 Sjálfboðaliði á neyðarlínu Rauðakrossins Tvær vaktir í mánuði við símsvörun á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717.
2001 Ráðstefna í Atlanta – USA Hélt fyrirlestur um skiplag spálíkanagerðar innan fyrirtækja.
1998 Vífilfell ehf. Endurskipulagning á dreifikerfi (verðlaunaverkefni í vörustjórnun árið 1998)
1997 Ísaga hf. (www.lindegas.com) Lokaverkefni í birgðastýringu.

Hvað er takmarkalaust líf?

Lífið á sér engin takmörk – nema þau sem þú býrð til!

Takmarkalaust líf er líf sem allir geta lifað. Það er líf án ótta, fordóma og annarra þátta sem draga úr okkur máttinn. Við látum ekki segja okkur að eitthvað sé ekki hægt. Þú átt bara eitt líf – Lifðu því.

Takmarkalaust líf er líf án takmarkana þar sem við látum drauma okkar rætast, hvort sem það eru draumar sem fela í sér líkamlegar eða andlegar áskoranir.

Það merkir ekki að vera fremri öðrum, heldur einfaldlega að sigrast á sínum eigin ótta og fordómum ásamt því að horfa gagnrýnum augum á almenn gildi og kreddur í þjóðfélaginu. Það er ekki hægt að segja að einn maður lifi takmarkalausara lífi en aðrir. Þetta er einstaklingsbundið líkt og margt annað. Einstaklingur sem þjáist af félagsfælni og heldur tölu í brúðkaupi getur lifað takmarkalausara lífi en sá sem sigrast á lofthræðslu og klífur Everest.

Annars er ágætt í þessu samhengi að minnast orða Hemingway þegar hann segir:

„Það er ekkert göfugt við að vera æðri öðrum manni, það sem er sannarlega göfugt er að vera æðri en maður var sjálfur í gær.“

Til að draga þetta saman má setja þetta fram svona: Að lifa takmarkalausu lífi er að vera sigurvegari í eigin lífi og sigrast á þeim ótta sem kemur í veg fyrir að við látum drauma okkar rætast.
Okkur eru engin takmörk sett, sem við getum ekki sjálf breytt með viðhorfi okkar. Með jákvæðu hugarfari og framkvæmd eru okkur allir vegir færir.
Þú ert allt sem til er.
Þínar hugsanir, þitt líf, þínir draumar rætast.
Þú ert allt sem þú velur að vera.
Þú ert jafn takmarkalaus og hinn endalausi alheimur.
Shad Helmstetter