Verðlagning

Það er mikilvægt að hafa í huga að þegar ég er fenginn til að halda fyrirlestur, þá eru fyrirtæki í raun að kaupa áratuga reynslu og menntun ásamt óhefðbundnu lífi mínu.

Ég hef fjárfest mikið í lífinu og þessi fjárfesting skilar sér í námskeiðin og fyrirlestrana sem ég held.

Ég hef …

Fjöllin:

Ég hef látið drauma mína rætast á mörgum sviðum og náð mörgum af markmiðum mínum. Ég hef klifið fimm fjöll af þeim sjö sem teljast hæstu fjöll hverrar heimsálfu og var fyrstur Íslendinga til að klífa hið alræmda fjall Carstensz Pyramid (4.884m) í Papúa Nýju-Gíneu, en það er hæsta fjall Eyjaálfu. Auk þessa hef ég klifið Mt. Elbrus (5.642m) í Rússlandi, hæsta fjall Evrópu, Mt. Kilimanjaro (5.895m), hæsta fjall Afríku, Aconcagua (6.962m), hæsta fjall Suður-Ameríku, Denali, 6.190m) hæsta fjall Norður-Ameríku og Mt. Blanc (4.809m), sem er hæsta fjall Vestur-Evrópu.
Ég hef farið í leiðangra á önnur fjöll eins og Alpamayo (5.947m) í Perú og Broad Peak (8.051m) í Pakistan, fjallið Rainier í Bandaríkjunum og Matterhorn á landamærum Sviss og Ítalíu ásamt fjölmörgum öðrum útivistarverkefnum. Meðal þeirra er að þvera Vatnajökull á gönguskíðum. Einnig má nefna leiðangra til Norður Víetnam (Sa Pa svæðið), til Kína (Tiger Leaping Gorge svæðið) og á slóðir Inkanna í Perú, Inca Trail frá Cusco til Machu Picchu.

Hlaup og IronMan:

Ég hef klárað tvær IronMan keppnir (synda 3,8 km, hjóla 180 km og hlaupa 42,2 km), hlaupið Laugaveginn (55 km) tvisvar sinnum og tekið þátt bæði í New York- og Reykjavíkurmaraþoni.
Menntun:
Eftir grunnskóla lá leið mín í fjölbrautaskóla en á þeim tíma átti það ekki við mig að stunda nám svo ég hóf almenna verkamannavinnu og fór því næst á sjóinn. Í framhaldi af því fór ég í Stýrimannaskólann og lauk þaðan öðru stigi, sem var tveggja ára nám sem veitti full skipstjórnarréttindi á öll fiskiskip. Næst lá leiðin í frumgreinadeild Tækniháskóla Íslands og í framhaldi af því útskrifaðist ég sem iðnrekstrarfræðingur af rekstrarsviði og með B.Sc. gráðu í vörustjórnun (logistics).
Ég hef líka lokið meistaranámi (MBA námi) í viðskiptum frá Háskólanum í Reykjavík með áherslu á mannauðsstjórnun. Ég er með NLP Practitioner gráðu frá BrUen og er alþjóðlega vottaður markþjálfi (Coach) frá Háskólanum í Reykjavík (CEG Core Essentials Graduate). Ég hef unnið á hjálparsíma Rauða krossins, stundað sjósund, yoga og köfun, prófað rafting, fallhlífarstökk og margt, margt fleira.

Starfsferill:

Eftir að hafa stundað sjómennsku og klárað háskólanám starfaði ég hjá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni í 12 ár og sinnti þar ýmsum störfum. Má þar nefna starf yfirmanns dreifingar, framkvæmdastjóri vörustjórnunar og framkvæmdastjóri tæknisviðs.