Þekking og Socrates

Að tala um þekkingu og leit að sannleika án þess að minnast á Socrates væri álíka og að tala um fótbolta og minnast ekki á Brasilíu. Hvaða sýn hafði Socrates á þekkingu og visku og hvers vegna var hann valinn vitrastur allra? Grípum niður í bók Gunnars Dal Saga heimspekinnar:

„Maður er nefndur Chairefón. Chairefón leitaði hins yfirskilvitlega, og þegar hann vildi fá úr því skorið, hvort meistari sinn, Sókrates, þá hálffertugur að aldri, væri vitrastur manna, hélt hann á fund völvunnar í Delfí. Véfréttin í Delfí var ævaforn. Erófil spámaður á þar að hafa sagt fram óorðna hluti frá „Kletti spámannsins“. Þar var að sögn Trójustríðið sagt fyrir. Hin fyrsta eiginlega véfrétt er þó talin hafa verið í hofi Móður jarðar (Ge-Themis).

Eftir að Appollódýrkunin hófst í Delfí og hið mikla Appollómusteri var reist, fluttist véfréttin þangað. Á dögum Sókratesar álitu Grikkir þetta musteri mesta helgidóm veraldar. Á veggi þess voru skráð vísdómsorð „hinna sjö vitru manna“, þar á meðal: „Þekktu sjálfan þig“ og „hóf er á öllu best“. Miðja Appollómusterisins var álitin miðdepill jarðarinnar. Þar í klefa einum djúpt niðri í fylgsnum hofsins stóð stór ávalur töfrasteinn, er tákna átti „nafla jarðarinnar“. Hjá honum sat völvan (pythian) á þrífæti sínum, tuggði lárviðarlauf sem vígð voru Appolló, og andaði að sér eimnum sem lagði upp um sprungur á gólfinu. Þannig innblásin af Guði hofsins mælti hún fram spádóma sína.

Til þessarar völvu leituðu æðstu menn ríkisins, þegar fara skyldi í stríð eða ný lönd numin. Og þangað leituðu margir til að fá lausn á vanda sínum og leita á vit hins ókomna.

Spurning Chairefón var óvenjuleg: „Er til nokkur maður núlifandi vitrari en Sókrates?“ – Völvan svaraði fyrir munn Guðsins og kvað engan vitrari en Sókrates.

Þegar Sókrates frétti þetta svar véfréttarinnar, varð hann undrandi og spurði sjálfan sig: Hvað getur Guðinn átt við með þessu? Hvernig getur sá, sem ekkert veit um hin dýpstu rök, verið vitrastur manna? – Sókrates trúði á æðri máttarvöld og æðri sannindi en þau sem menn þekkja. Þess vegna á efi Sókratesar um þekkingu sína ekkert skylt við sjónarmið efasemdamannsins sem efast um allt. Sókrates trúði því að hin æðri máttarvöld gætu á ýmsan hátt komið boðum sínum til mannanna. Sjálfur taldi hann sig hafa reynslu fyrir slíku í draumum sínum og dulheyrnum. Og hann efast ekki um að innblástur skáldsins, hin andlega sýn spámannsins og „trans“ völvunnar í helgidómi Appollós væri af sama toga spunninn. Á hinn bóginn leyfði rökhyggja hans ekki að hann tæki goðsvarið trúanlegt að órannsökuðu máli. Hann varð að ganga úr skugga um það, hvort ekki væri að finna sér vitrari menn í Aþenu sem um þessar mundir var háborg heimsmenningarinnar, – Og Sókrates lagði af stað út á stræti og torg borgarinnar til að leita þeirra. Hann hélt fyrst á fund þess, sem fjöldinn dáði — hins fræga stjórnmála- og valdamanns. Og Sókrates komst að raun um, að stjórnmálamaðurinn var vitur -að sjálfs sín dómi og margra annarra, – en vissi í raun og veru ekki neitt.

Og þannig gekk Sókrates manna á milli, frá stjórnmálamönnum til skálda og frá skáldum til iðnaðarmanna, en alls staðar rak hann sig á það sama; Mennirnir héldu sig vitra, en áttu þó ekki hina sönnu þekkingu. Og að lokum þóttist Sókrates skilja, hvað Guðinn í Delfí hafði átt við: Menn þekkja ekki takmörk mannlegrar þekkingar, hann hafði skilið vanmátt skynseminnar gagnvart hinu yfirskilvitlega og vissi að hann vissi ekki neitt! Þess vegna var hann vitrastur manna! En þessi takmörk mannsins voru að dómi Sókratesar ekki alger og endanleg. Maðurinn var ekki vonlaus. Ljós hinnar sönnu þekkingar bjó í djúpum hverrar sálar og maðurinn átti í vændum að komast með auknum þroska út úr andlegu myrkri sínu. Fyrst varð þó maðurinn að skilja að hann væri algerlega fáfróður án hinnar andlegu sýnar sem er loka takmark heimspekingsins. Og Sókratesi skildist um leið að hér væri honum af æðri máttarvöldum ætlað verk að vinna, – fá menn til að skilja fáfræði sína og leiða þá síðan frá myrkri til ljóss. Um þessa köllun sína lætur Plató Sókratesi síðar farast orð á þessa leið: Meðan ég dreg andann og hef mátt til, mun ég ekki hætta að iðka heimspeki, ekki hætta að áminna ykkur og skýra ykkur frá hinu sanna, hverjum sem ég mæti og segja eins og mér er tamt: Kæri vinur, þú ert borgari í Aþenu, mjög stórri borg og frægri fyrir vitsmuni og mátt andans. Fyrirverðurðu þig ekki fyrir að sækjast svo ákaft eftir fé, frægð og heiðursmerkjum? Viltu ekki leita andans og hugsa um að fullkomna sál þína?

Þegar ég hélt burt hugsaði ég með sjálfum mér: „Sannarlega er ég þó vitrari en þessi maður. Hvorugur okkar virðist hafa neinni þekkingu af að státa, en hann heldur sig vita eitthvað, þótt hann viti ekkert, en mér er ljós fáfræði mín. Ég virðist því vera ofurlítið vitrari að því leyti að ég held mig ekki vita það sem ég veit ekki.“

Þetta varð upphafið að endalokum Sókratesar. Hvað gerðist þegar hann var búinn að afhjúpa að vitrustu menn Aþenu voru í raun ekki vitrir? Hann var með því búinn að færa til skalann. Þeir sem töldu sig vera efsta á vitsmunaskalanum var skyndilega kippt niður og það líkaði þeim alls ekki. Þessir menn voru broddborgarar Aþenu á þessum tíma, æðstu menn í stjórn landsins. Þeir gripu því til þess, sem svo oft hefur verið gert þegar einhver kemur fram og opinberar sannleika sem ekki hugnast stjórnvöldum. Sókrates var tekinn fastur og settur í fangelsi þar sem hann, að lokum, var tekinn af lífi með eitri. Sannleikurinn er sagna vestur… fyrir suma að minnsta kosti.

Þekking okkar er oft á tíðum ákaflega grunn og jafnvel það sem við teljum vera auðskilið getur reynst hið flóknasta mál. Að vera auðmjúkur gagnvart þekkingu og taka engu sem gefnu er því dyggð góð. Fyrir mitt leyti get ég sagt að ég hef lengi haft mikla ástríðu fyrir hollustu og heilbrigðum lífsstíl. Ég hef eytt löngum stundum í að grúska í öllu mögulegu sem viðkemur þessu áhugamáli mínu. Það sem hefur gerst á undanförnum árum er að hvað eftir annað hef ég talið mig vera kominn mjög hátt, ef ekki á topp þekkingarkúrfunnar. Á þeim tímapunkti hef ég talið mig vita nákvæmlega hvað væri hin sanna hollusta og heilbrigður lífsstíl. Síðan hef ég, að skömmum tíma liðnum, farið að grúska í nýju efni og komist þá að því hvað ég vissi í raun lítið. Með öðrum orðum, eftir því sem ég hef kafað dýpra og dýpra í þetta áhugamál mitt hef ég komist að því hversu lítið ég í raun veit.

Eina sanna viskan er að vita að þú veist ekkert. – Socrates