Er gaman í vinnunni?
Markmið
Að auðvelda samskipti á vinnustað og gera þau opnari, líflegri og skemmtilegri. Að vekja fólk til umhugsunar um viðhorf sitt til vinnunnar og hvernig það talar og kemur fram hvert við annað. Námskeiðið er umfram allt skemmtilegt, persónulegt og gagnlegt. Markmiðið er einnig að nota aðferðirnar til að taka á samskiptaerfiðleikum og vandamálum, ef slíkt er fyrir hendi á vinnustaðnum.
Meðal þess sem farið er yfir
- Lítum til samskipta og viðhorfs almennt. Hvernig á að taka á ágreiningsmálum?
- Flestir gera sér einhverja grein fyrir styrkleikum sínum og veikleikum í mannlegum samskiptum. En gerum við okkur grein fyrir því hvernig framkoma okkar virkar á samstarfsfólk okkar?
- Hvernig getum við forðast slúður og baktal á vinnustöðum? Hver er oft á tíðum grunnástæðan fyrir baktali? Hvernig á að takast á við baktal sem nú þegar er komið af stað?
- Hvers vegna er það svona erfitt fyrir okkur að biðjast afsökunar ef okkur verða á mistök?
- Sagt er að skilnaðartíðni sé í kringum 40% en hvað getum við gert á vinnustöðum? Þú getur ekki „skilið við“ samstarfsfólkið. Hvað er þá til ráða þegar samskipti fara í hnút?
Helsti ávinningur af námskeiðinu
- Fólk sér samskiptin í nýju ljósi og skynjar betur eigin ábyrgð og hlutverk í þessum samskiptum. Námskeiðið auðveldar starfsmönnum að fyrirbyggja neikvæð samskipti og brjóta upp óásættanlegt mynstur í samskiptum til að koma í veg fyrir stigmögnun.
- Að þátttakendur sjái hvernig oft er hægt að snúa erfiðri stöðu sér í hag í mannlegum samskiptum.
- Aukið sjálfstraust og lífshamingja á vinnustað og fólk upplifir eflingu og vinnugleði í kjölfarið.
- Að þátttakendur líti björtum augum á framtíðina á sínum vinnustað.
Lengd og dagskrá
Lengd námskeiðsins er þrír tímar og gróflega er dagskráin svona: Fyrst er fyrirlestur um viðhorf og jákvæðni á vinnustað, síðan tekur við hópavinna og að lokum er fyrirlestur um samskipti á vinnustað.
Varðandi hluta tvö, þá er hann ákveðin vinnustaðagreining. Starfsfólkinu er skipt upp í vinnuhópa þar sem unnið er með spurningar sem taka á hinum ýmsu þáttum starfsins. Þegar hóparnir hafa lokið sinni vinnu þá koma allir saman og ræða niðurstöðu hópavinnunnar. Námskeiðshaldarinn tekur þá saman allar niðurstöður og sendir viðkomandi yfirmanni í tölvupósti. Upp úr þessari vinnu má síðan búa til, sem eftirfylgni, samskiptareglur fyrir vinnustaðinn.
Samskiptareglurnar sjálfar geta verið í tvenns konar formi. Annars vegar sem bæklingur þar sem farið er t.d. yfir nokkuð nákvæmlega virka hlustun, endurgjöf, hrós, ágreiningsmál, baktal, liðsheild, einelti, kynferðislegt áreiti og jákvætt viðhorf. Hins vegar væri um að ræða samskiptareglur á einblöðungi, sem t.d. væru hengda upp á vegg á kaffistofu starfsfólksins.
Allt þetta er byggt á niðurstöðum hópavinnunnar.
Fyrir hverja
Tilvalið fyrir fyrirtæki eða stofnanir eða deildir innan þeirra þegar haldinn er starfsdagur. Hentar einnig vel til að brjóta aðeins upp daginn og koma með nýja og ferska vinda inn á vinnustaðinn.
Á líka einstaklega vel við á erfiðum stundum. Það geta verið vissir álagsþættir vegna eðlis starfsins, eitthvað í samskiptum stjórnenda og undirmanna eða í innbyrðis samskiptum hjá þeim sem starfa náið saman. Stundum er ekkert sérstakt að en vantar meiri vinnugleði og áhuga.