Er gaman í vinnunni?

Markmið:

Að auðvelda samskipti á vinnustað og gera þau opnari, líflegri og skemmtilegri. Að vekja fólk til umhugsunar um viðhorf sitt til vinnunnar og hvernig það talar og kemur fram við hvort annað. Námskeiðið er umfram allt skemmtilegt, persónulegt og gagnlegt. Markmiðið er einnig að nota aðferðirnar til að taka á samskiptaerfiðleikum og vandamálum ef slíkt er fyrir hendi á vinnustaðnum.

Meðal þess sem farið verður yfir:

 • Hver og einn ber ábyrgð á eigin viðhorfi til lífsins, innan og utan vinnu og er í lófa lagið að takast á við fyrirliggjandi verkefni með jákvæðum og opnum huga.
 • Áttum okkur á því hvað það er sem gerir okkur hamingjusöm og ánægð með árangur okkar.
 • Lítum til samskipta og viðhorfs almennt. Hvernig á að taka á ágreiningsmálum?
 • Ræðum um árangur og mikilvægi þess að gleðjast. Hvernig tökum við því sem við höfum áorkað með þakklæti og af jákvæðni?
 • Flest okkar gera sér einhverja grein fyrir því hverjar eru þeirra sterku og veiku hliðar í mannlegum samskiptum, en gerum við okkur grein fyrir því hvernig framkoma okkar virkar á samstarfsfólk okkar?
 • Hvernig getum við forðast slúður og baktal á vinnustöðum? Hver er oft á tíðum grunn ástæðan fyrir baktali? Hvernig á að takast á við baktal sem nú þegar er komið af stað?
 • Hvernig getum við farið að því að vinna sem ein liðsheild?
 • Hvers vegna er sjálfstraust svona mikilvægt í mannlegum samskiptum?
 • Hvers vegna er það svona erfitt fyrir okkur að biðjast afsökunar ef okkur verða á mistök?
 • Sagt er að skilnaðartíðni sé í kringum 50% en hvað getum við gert á vinnustöðum? Þú getur ekki „skilið við“ samstarfsfólkið. Hvað er þá til ráða þegar samskipti fara í hnút?
 • Hvernig getur jákvæðni hjálpað í samskiptum á vinnustað? Fólk sem er jákvætt er yfirleitt auðveldara í samskiptum og á auðveldara með lausnahugsun. Það er ekki hægt að skipa fólki að; „vera nú jákvætt!“

Helsti ávinningur af námskeiðinu:

 • Fólk sér samskiptin í nýju ljósi og skynjar betur eigin ábyrgð og hlutverki í þessum samskiptum. Námskeiðið auðveldar starfsmönnum að fyrirbyggja neikvæð samskipti og brjóta upp óásættanlegt mynstur í samskiptum til að koma í veg fyrir stigmögnun.
 • Að þátttakendur sjái hvernig oft er hægt að snúa erfiðri stöðu sér í hag í mannlegum samskiptum.
 • Aukið sjálfstraust og lífshamingja á vinnustað og fólk upplifir eflingu og vinnugleði í kjölfarið.
 • Betri innsýn í eigin hugsanir og framkomu og aukin hæfni í að takast á við mótlæti.
 • Að þátttakendur líti björtum augum á framtíðina á sínum vinnustað.

Lengd:

Lengd fyrirlestrar er ein klukkustund en námskeiðsins breytileg. Hafið endilega samband varðandi lengd á námskeiðinu.

Fyrir hverja:

 • Tilvalið fyrir fyrirtæki eða deildir innan fyrirtækja eða stofnana þegar haldinn er starfsdagur. Hentar einnig vel til að brjóta aðeins upp daginn og koma með nýja og ferska vinda inn á vinnustaðinn.
 • Á líka einstaklega vel við á erfiðum stundum. Það geta verið vissir álagsþættir vegna eðlis starfsins, eitthvað í samskiptum stjórnenda og undirmanna eða í innbyrðis samskiptum hjá þeim sem starfa náið saman. Stundum er ekkert sérstakt að en vantar meiri vinnugleði og áhuga.